Ömurlegt...

Við leigubílstjórar vinnum við þjónustustarf. Við keyrum fólk frá A til B gegn gjaldi og þó ég segi sjálfur frá þá eru íslenskir leigubílstjórar í hæsta gæðaflokki hvað varðar fagmennsku. Sama má segja um bílana, óvíða sjást eins vandaðir, dýrir og snyrtilegir bílar eins og á Íslandi. Og ekki að ástæðulausu, segja má að viðskiptavinir okkar, þe íslenska þjóðin, sé orðin þessu vön og ætlist til þess.

En svo koma upp svona atvik. Einhver dauðadrukkin skítaklessa ræðst á bílstjórann og bítur hann!! Það er reyndar alveg ótrúlegt hvað okkur er boðið uppá. Það er ælt í bílana hjá okkur, fólk stingur af frá ógreiddum bíl og svona má endalaust telja. Það kemur jafnvel fyrir að fólk skíti á sig í bílunum hjá okkur. Fólk hefur verið svo ósvífíð að halda því fram að það sé "innifalið í verðinu" að æla í leigubíl og neitað að greiða fyrir þrif og vinnutap. Það er sparkað í bílana hjá okkur, hent í þá flöskum og dósum, fólk sest á götuna fyrir framan í bílinn í þeirri fáránlegu trú að það fái þá frekar far með þeim bíl jafnvel þó svo hann sé þegar með farþega. Speglarnir eru brotnir af, sætisáklæðin skorin sundur, öryggisbeltin eyðilögð, fiktað í tækjunum. Okkur er hótað líkamsmeiðingum, jafnvel ógnað með hnífum eða flöskum, það er ýtt við okkur, káfað á okkur, rifið í okkur. Við horfum uppá hjón berja á hvort öðru í bílunum á leið heim úr nýárs eða jólaboðum, jafnvel með smábörn með sér. Iðulega er ætlast til þess að við tökum farþega sem eru svo ósjálfbjarga af drykkju að það þarf bókstaflega að bera þá útí bíl. Og svo þegar við neitum, því hvers vegna í ósköpunum eigum við að taka dauða manneskju í bílinn, verður fólk alveg brjálað.  

Mér þætti gaman að sjá íslendinga sýna af sér erlendis þó ekki væri nema helming þeirra skrílsláta sem þeir sýna af sér í leigubílum hérlendis. Hætt við að margir myndu gista fangageymslur þá eða jafnvel þaðan af verra.

Mikið er kvartað yfir hvað leigubílar eru dýrir hér á landi. Og það má svosem færa að því rök að svo sé. En ég spyr þig lesandi góður hvað villt þú fá í kaup fyrir segjum 12 tíma vinnu frá 20 á laugardagskvöldi til 8 á sunnudagsmorgni? Einföldum þetta og finnum út hvað þú villt hafa í tímakaup. Þætti þér 2500 kall á tímann viðunandi? Líka ef ég segði þér að þú þyrftir að eiga von á öllu því sem ég taldi upp hérna fyrir ofan og örugglega lenda í einhverju af því?? Ég hugsa reyndar að flestum þætti 2500 kallinn of lítið og reikna með að flestir vildu meira. Segjum 3500 kall.

Á ég að segja ykkur soldið? Við leigubílstjórar berum sennilega svipað eða minna úr býtum þegar reiknað er með kostnaði. Hvaða kostnaði spyrð þú nú lesandi, er þetta ekki bara bensín??

Kostnaður við rekstur leigubíls er svona á bilinu 30-40% af því sem inn kemur. Af 3000 kr fargjaldi, segjum úr Hafnarfirði niður í miðbæ Reykjavíkur á næturtaxta fer með öðrum orðum um 1000 kall í kostnað. Kíkjum aðeins í kostnaðinn:

Bensín á mánuði ca 120 þúsund.

Stöðvargjöld á mánuði 65 þúsund

Dekk. Þrír gangar á ári hið minnsta ca 200 þúsund. Svona 18-20 þús á mánuði

Tryggingar. Já það er dýrt að tryggja leigubíl. 230 þús á ári hjá mér. Um 20 þús á mánuði.

Ein smuringin á mánuði 10 þúsund kall.

10 þúsund kílómetrar keyrðir á mánuði. Það er slit á bílnum fyrir svona 100 þúsund kall á mánuði. Mismundi eftir bílum vissulega en örugglega ekki undir þvi. Sæmilegur bíll til leiguaksturs kostar svona 2.5 til 3 milljónir. Eftir 2 ár er hann keyrður 230-270 þúsund og orðinn verðlaus.

Annar kostnaður. Þrif á bílnum, bifreiðagjöld, almennt viðhald, gjöld til Vegagerðarinnar, kostnaður vegna posaviðskipta, töluverður símakostnaður (fólk vill jú láta hringja í sig þegar bíllinn er kominn) og margt smátt og stórt. Mismunandi auðvitað en örugglega 30 - 50 þúsund kall á mánuði.

Ekki segja mér að leigubílar séu of dýrir á Íslandi.

En hvað er til ráða? Eigum við kannski að fara bara í verkfall og hætta að sinna akstri á helgarnóttum? Eigum við að kaupa allir breska leigubíla með 5-6 sætum afturí, skilrúm með lúgu til að loka á farþegana? Bíll sem er hægt að spúla með slöngu eftir hina hamingjusömu íslendinga sem geta ekki haldið þorramatnum niðri á leiðinni heim?? Kaupa okkur rafbyssur?? Veit ekki, hvað finnst þér??

 Það má ekki misskilja mig. Að vera leigubílstjóri er ekki örmulegt eða leiðinlegt starf. Þvert á móti. Það er skemmtilegt og áhugavert starf. Þú hittir endalaust af skemmtilegu fólki, leiðinlegur reyndar líka, þú ert alltaf á ferðinni, hvort sem er á nóttu eða degi, í sól eða snjó. En það þarf bara einn farþega til að eyðileggja daginn, nóttina, vikuna eða jafnvel lífið eins og hann Bjössi kunningi minn lenti í. Einhver smástrákur ákvað að það væri þjóðráð að ræna hann og barði hann með hamri í hausinn. Bjössi verður aldrei samur maður á eftir.


mbl.is Ráðist á leigubílstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill!! Ég var að leysa af leigubíllstjóra úti á landi fyrir nokkrum árum og mesta vandamálið var að fá borgað,,,, alltaf sama svarið,,,, hva, á ég að borga? ég þekki hann!! fólk var ekki að skilja að þetta er bisness.

Gangi þér vel.

Þráinn Maríus (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 09:59

2 identicon

Margt mjög gott í þessum pistli þínum, ég hef gripið í þennan akstur í 10 ár, þá til að leysa bílstjóra á Hreyfli af um helgar. Tók ákvörðun á seinasta ári að hætta þessu eftir margar fréttir af ofbeldi gegn leigubílstjórum.  Ég hef oft sagt að þetta sé 99% skemmtleg vinna en þetta eina prósent gerir þessa vinnu alveg ömurlega. Gangi ykkur vel sem eruð svo kjarkmiklir að nenna þessu áfram.  Svo gleymir þú líka að minnast á allan biðtímann í þessari vinnu.

EG (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 10:10

3 Smámynd: Mummi Guð

Ég var að keyra leigubíl með hléum í mörg ár. Þó vissulega hafi margt af því sem þú nefnir gerst hjá mér, þá man ég fyrst og fremst eftir því skondna og skemmtilega í starfinu og þau atvik voru mun algengari en hinar.

Mummi Guð, 27.1.2008 kl. 10:18

4 Smámynd: Taxi Driver

Auðvitað er margt skemmtilegt í þessu starfi. Það er gefandi að þjónusta blinda, fatlaða og aldraða svo dæmi sé tekið. En það þarf bara einn og ástandið er alltaf að versna. Meira dóp, meira ofbeldi, meiri firring. Bara á síðustu 3 mánuðum hefur verið ælt í bílinn hjá mér (2 sinnum), skitið í hann, afleysingarbílstjóra hótað með hníf, sparkað í hann, hent i hann drasli. Nokkrum sinnum hefur þurft að kalla til lögreglu vegna ósjálfbjarga farþega. Jújú, en samt er þetta líka skemmtilegt!!

Taxi Driver, 27.1.2008 kl. 10:27

5 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Hæ aftur ein skítaklessa komin á yfirráðasvæði þitt
Þar sem við höfum bæði unnið við þjónustu störf mest allt lífið þú sem
taxi driver ég sem barþjónn þá ættum við að skilja hvort annað ágætlega,
vona að þú farir aftur inn á bloggið mitt og lesir þér til þar hvað í rauninni ég var að meina. Og Óskar líka sem fretar yfir skítaklessuna og skilur ekki heldur færsluna mína, en hann er nú sanngjarn er hann lýsir samskiptum sínum við
kúnnana.
sexý boy segðu mér eitt svona bara okkar á milli af hverju er alltaf talað meira um ef að konur bíta klóra og krafsa, heldur enn karlar?
Ég gæti sagt ykkur margar sögur, bæði af körlum og konum, en læt staðar numið. Eitt er á hreinu ég þoli ekki ofbeldi, tek aldrei upp hanskann fyrir því,
hef allt of mikla reynslu af því til að þola það.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 27.1.2008 kl. 11:22

6 Smámynd: Taxi Driver

Guðrún: Ég áttaði mig sosum á því hvert þú varst að fara þó svo textinn þinn væri soldið einlitur. En veistu, þetta er eiginlega rétt hjá Óskari og þú sem barþjónn hlýtur að vita það, amk innst inni; drukknar konur svona frá fertugu og uppúr eru umþaðbil það allra versta sem þú færð í leigubílinn þinn. Frekar, hrokafullar, dónalegar og ætla sko ekki að láta einhvern leigubílstjóraræfil drulla yfir sig. Alltof oft tilbúnar að pikka fæt við þig, eða hvern sem er. Sorry en sona er þetta.

Taxi Driver, 27.1.2008 kl. 11:53

7 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Já finnst þér það rétt hjá Óskari að ég ætti að skammast mín?
Sorry, bara fyrir hvað,
Á mínum bar voru það yfirleitt karlarnir sem voru ljótir
konurnar pössuðu sig betur, nema ef það voru seinkanir á flugi
þá gat ástandið orðið svart. Ég var nefnilega í flugstöðinni.
Eitt ætla ég að segja þér að ef ég veit eitthvað þá segi ég það, er ekki að fela neitt. Ég sagði áðan að ég gæti sagt margar sögur af bæði körlum og konum,
en maður er ekki að því að ástæðulausu. Skrifin voru einlit vegna þess að ég var nýbúin að lesa greinina sem ég blogga svo um
ofbeldismönnum er viðbjargandi. Ritaði þannig ekkert um þolandann í
árásar málinu, það á nú að vera augljóst að kona sem bloggar eins og ég
um ofbeldi á allan handa máta, hún er ekki að bera í bætifláka fyrir ofbeldi.
                                  Kveðja.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 27.1.2008 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband